Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Björn Davíðsson Björn Davíðsson | 26. júlí 2023

Aukinn aðgangshraði hjá Snerpu

Algeng tilkynning frá birgjum á heimsmarkaði.
Algeng tilkynning frá birgjum á heimsmarkaði.

Snerpa hefur um nokkurn tíma unnið að því að auka afköst í ljósleiðarakerfi sínu með það að markmiði að veita betri þjónustu í sífellt kröfuharðara umhverfi. Þannig var byrjað að bjóða 100 Mbps afkastagetu þegar Snerpa fór af stað með þjónustu á ljósleiðara en það stjórnaðist mest af þeim búnaði sem í boði var og kostnaði við sambönd milli landshluta og til útlanda. Jafnframt hefur frá upphafi verið boðin svokölluð P2P þjónusta sem er ólík GPON þjónustu að því leyti að full afköst haldast alla leið frá notanda að miðlægum búnaði Snerpu í viðkomandi hverfi eða byggðarkjarna.

Það hefur tafið uppbygginguna nokkuð að síðan heimsfaraldurinn hófst hefur verið verulegur skortur á aðföngum og afgreiðsluhraða á þeim. Þannig hefur tekið upp í nokkra mánuði að fá afhentan búnað og oft munað litlu að netþjónustan væri ,,uppseld" vegna endurtekinna frestana á pöntunum. Þetta á bæði við um búnað en einnig ljósleiðara og rör en þó hefur okkur tekist að laga okkur að aðstæðum, t.d. með því að leggja rör á meðan ljósleiðara vantaði og blása ljósleiðara í þegar grafin rör þegar rörin skorti.

Ákveðið var fyrir nokkru síðan að hækka aðgangshraða notenda úr 100 Mbps í 500 Mbps og var þá fenginn búnaður (ljósbreytur) sem styður allt að 1000Mbps (1Gíg) heim til notenda. Flestir notendur eru nú komnir með 1 Gíg ljósbreytur og verður skipt út eftir þörfum ljósbreytum hjá þeim sem eru enn með 100Mbps ljósbreytur. Til að ljúka breytingum upp í 1 Gíg þarf m.a. að stækka sambönd milli byggðarkjarna en þær breytingar eru þegar hafnar og mun ljúka á næstu mánuðum.

Við eigum þó ekki von á að notendur sjái að þessar breytingar valdi neinum straumhvörfum, flöskuháls í netsamskiptum er venjulega ekki á ljósleiðaraheimtaugum en þetta mun vissulega skipta máli eftir því sem tengingar þróast t.d. með hærri upplausn á sjónvarpsefni og streymi sem er sú þjónusta sem er stærsti hlutinn af nettengingum nú og í nánustu framtíð.


Til baka