Merki Íþróttafélagsins Vestra

Merki félagsins

Merki Vestra er hannað af Ísfirðingnum Birgi Erni Breiðfjörð, hönnuði og ráðgjafa í stafrænni markaðssetningu og grafískri miðlun. Val á merki fyrir félagið fór fram með þeim hætti að aðalstjórn Vestra fékk nokkra hönnuði til að skila inn tillögum um merki félagsins. Óskað var eftir að í merkinu væri tilvísun í nafn félagsins eða upphafsstaf þess, umhverfi eða staðhætti. Úr þeim tillögum sem bárust, valdi aðalstjórn Vestra þrjár tillögur sem kosið var um í netkosningu dagana 29. apríl til 4. maí 2016. Átti Birgir Örn tillögu nr. 3 sem hlaut 47% af 487 greiddum atkvæðum. Í framhaldinu var honum falið að vinna og þróa merkið frekar með hliðsjón af mismunandi tilefnum.

Hér á síðunni má nálgast nokkrar útgáfur af merki félagsins. Merkið er bæði á jpg og pdf skráarsniði og eru pdf skrárnar vector skrár. Vectorskrárnar eru notaðar til merkinga á fatnaði og þess háttar.

Þessi útgáfa merkisins er mest notuð og er í litum félagsins
Svört útgáfa af merki.
Hvít útgáfa af merki. PDF skráin er skrá með merkinu hvítu en er á hvítum fleti og sést því merkið ekki þegar skráin er opnuð. Ætli deildir að nota hvítt merki á dökkann bakgrunn búnings, skal nota þessa skrá.

 

Reglugerð um merki íþróttafélagsins Vestra

 

1. Heimild til að nota félagsmerkið og skilyrði

1.1.Merki íþróttafélagsins Vestra er eign félagsins og verndað að vörumerkjarétti. Markmið reglna þessara er að tryggja að samræmi sé í notkun merkis félagsins og að koma í veg fyrir misnotkun þess.

1.2. Merkinu er ætlað að vera hluti af ímynd félagsins bæði inn á við og út á við. Þannig er merkinu ætlað að stuðla að samstöðu milli deilda og félagsmanna. Merkið skal notað og borið þannig að ekki sé varpað rýrð á það. Óheimilt er með öllu að nota eða láta gera skrumskældar útgáfur merkisins.

1.3. Hver íþróttadeild skal fá samþykki aðalstjórnar félagsins á búningi sínum. Allir keppnis- og æfingabúningar á vegum félagsins skulu bera merki félagsins í samræmi við eftirfarandi ákvæði:

1.3.1. Merki félagsins er blátt vaff (v) með rauðum baug um miðju þar sem stendur „Vestri“. Litir félagsins eru blár: Pantone 19-3938 TCX og rauður: Pantone 18-1663 TCX.

1.3.2. Merkið skal staðsett á vinstra brjósti bæði á keppnis- og æfingagöllum eða í samræmi við reglur sérsambands um félagsmerki ef þær kveða á um annað.

1.3.3. Aðalstjórn félagsins getur heimilað frávik frá reglum þessum í samræmi við hefðir sem skapast hafa í samskiptum félaga í viðkomandi keppnisgreinum. Þetta á sérstaklega við þegar litagrunnur æfinga- eða keppnisgalla er óheppilegur fyrir merkið í sinni réttu mynd.

1.4. Aðalstjórn og deildum félagsins er heimilt að nota félagsmerkið í kynningarefni fyrir félagið, á heimsíðu, samfélagsmiðlum, tölvupóstum og öðru efni sem gefið er út í nafni félagsins.

1.5. Aðalstjórn félagsins er heimilt að láta framleiða vörur með merkinu, sem félagsmenn og aðrir geta keypt, svo sem barmmerki, bindisnælur, borðfána, húfur o.s.frv. Aðalstjórn getur heimilað deildum félagsins slíka framleiðslu.

1.6. Almennum félagsmönnum er óheimilt að nota merki félagsins í hvers konar atvinnuskyni eða til að merkja efni sem notað er í auglýsingaskyni eða í útgáfu sem ekki er á vegum félagsins.

1.7. Nota má merki félagsins í samstarfsverkefni með þriðja aðila uppfylli það öll skilyrði um notkun merkisins og aðalstjórn félagsins veiti heimild til slíks.

2. Afleiðingar og viðurlög sem óréttmæt notkun félagsmerkisins hefur í för með sér

2.1. Sé aðili uppvís af óréttmætri notkun merkis félagsins, skal aðalstjórn félagsins senda viðkomandi kröfu um að notkun félagsmerkisins verði hætt strax og það fjarlægt af þeim miðli þar sem það hefur verið birt með óréttmætum hætti.

2.2. Aðalstjórn félagsins er heimilt að takmarka og jafnvel banna einstökum deildum eða einstaklingum notkun merkisins ef notkun þeirra á því samrýmist ekki ákvæðum reglna þessara og ekki er orðið við tilmælum um úrbætur.

2.3. Sé um að ræða misnotkun utanaðkomandi aðila á félagsmerkinu áskilur íþróttafélagið Vestri sér rétt til þess að vísa málinu til Neytendastofu til úrskurðar og í framhaldi til dómstóla ef þörf krefur.

3. Réttindi og skyldur íþróttafélagsins Vestra gagnvart þeim sem notar félagsmerkið

3.1. Íþróttafélagið Vestri birtir á heimasíðu sinni hagnýtar upplýsingar um merki félagsins og leiðbeiningar um notkun þess.

3.2. Íþróttafélaginu Vestra ber að tilkynna aðila sem verður uppvís að óréttmætri notkun félagsmerkisins um brot á reglum þeim sem gilda um merki félagsins ásamt áskorun um að hætta þeirri notkun.